SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn30. mars 2025

HEIÐURSVIÐURKENNING LESTRARKLEFANS

Sá gleðilegi viðburður varð í vikunni að menningarvefurinn Lestrarklefinn hlaut sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu íslensku hljóðbókaverðlaunanna,  Storytel Awards, fyr­ir fram­lag til umræðu um bók­mennt­ir og lestr­ar­menn­ingu á Íslandi. 

"Lestr­ar­klef­inn er grasrót­ar­vett­vang­ur sem hef­ur frá ár­inu 2018 unnið óeig­ingjarnt og kraft­mikið starf við að halda bók­menntaum­ræðu á Íslandi lif­andi. Á vefn­um er fjallað af ástríðu og fag­mennsku um bæk­ur í öll­um form­um – hvort sem um er að ræða prentaðar bæk­ur, hljóðbæk­ur eða raf­bæk­ur – auk leik­húss og menn­ing­ar í víðara sam­hengi,“ seg­ir í um­sögn dóm­nefnd­ar þar sem jafn­framt kem­ur fram að með vandaðri um­fjöll­un, fjöl­breyttu efni og per­sónu­legri nálg­un hafi Lestr­ar­klef­inn veitt aðgengi­lega bók­menntaum­fjöll­un og tengt sam­an les­end­ur, höf­unda og verk á lif­andi hátt. 

Í þakkarræðu Rebekkju Sifjar, ritstjóra Lestrarklefans, kemur fram þessi ástríða fyrir bókmenntum sem við í ritstjórn Skáld.is þekkjum líka svo vel og leggjum mikið á okkur til að miðla.

Árið 2017 fór vefur Skáld.is í loftið og er núna ein kona eftir af upprunalegri ritstjórn en hana skipa um þessar mundir Jóna G. Torfadóttir sem er annar stofnenda, Magnea Þ. Ingvarsdóttir, Soffía Auður Birgisdóttir og Steinunn Inga Óttarsdóttir sem allar hafa hugsjónir og metnað fyrir hönd Skáld.is og gefa bæði tíma og peninga til að halda vefnum úti  þrátt fyrir annir á margvíslegum öðrum vettvangi. 

Ritstjórn hefur í gegnum árin lagt áherslu á að halda íslenskum skáldkonum og verkum þeirra á lofti. Á vefnum Skáld.is er að finna margvíslega bókmenntaumfjöllun, ritdóma, skáldatal með æviágripi, ritaskrá o.fl, fréttir og greinar, skáldskap og viðtöl. 

Það er frábært, dýrmætt og virðingarvert þegar hugsjónastarf í sjálfboðavinnu eins og það sem Skáld.is og Lestrarklefinn sinna til viðhalds bókmenntum, menningu, sögu og tungumáli fær opinbera og formlega viðurkenningu. Fólki hættir til að taka sjálfboðavinnu sem sjálfsögðum hlut en án hennar og heitra hugsjóna væri heimurinn sannarlega snauðari. 

Til hamingju Lestrarklefinn!

 

Mynd af vef Lestrarklefans