Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙29. maí 2025
SPENNANDI BYLUR
Út er komin spennusagan Bylur eftir Írisi Ösp Ingjaldsdóttur. Þetta er önnur bók Írisar Aspar en hún sendi frá sér spennutryllinn Röskun árið 2019. Röskun ku rata í bíóhús seinna á árinu en tökur hafa staðið yfir í leikstjórn Braga Þórs Hinrikssonar eftir handriti Helgu Arnardóttur. Svo segir frá Byl:
Bergur er hamingjusamur fjölskyldufaðir í góðri vinnu. Lífið er fullkomið þar til að sonur hans deyr og heiftin gagntekur hann. Hann er staðráðinn í að leita hefnda og beinist reiði hans að Öldu og syni hennar Styrmi. Vel falinn bakgrunnur Bergs kemur upp á yfirborðið og Alda og Styrmir eru í bráðri hættu. Spennan magnast þegar sannleikurinn kemur smám saman í ljós. Hver á raunverulega sök á dauða Daníels?