SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir30. mars 2019

Ekki of seint að frelsa heiminn

Út er komið safn af greinum eftir Kristínu Marju Baldursdóttur undir heitinu Frelsun heimsins. Titillinn vísar til blaðamennskuára Kristínar Marju hjá Mogganum þegar hún ung og baráttuglöð hugðist frelsa heiminn en þreytulegur ritstjóri bað hana vinsamlegast að láta það eiga sig. En það er enn ekki of seint.

Í safninu eru sextán greinar um ýmislegt, m.a. um konur og bókmenntir.

„Ég hef fengist við það í skáldskap mínum að ljá konum raddir, og það hefur verið talað um að ég skrifi bækur mínar frá sjónarhorni konu. Sem ég þræti ekki fyrir. En þá má ekki gleyma því að karlkyns rithöfundar skrifa gjarnan bækur sínar frá sjónarhorni karla en um það er reyndar aldrei talað.

Bókmenntaheimurinn var heimur karla svo lengi. Eins og við vitum hafa þeir skrifað töluvert af bókum í tímans rás, og þær bækur fjölluðu og fjalla yfirleitt um karla. Konur sem koma fyrir í sögum þeirra eru oftast séðar með þeirra augum. Heimur karla er því orðinn okkur nokkuð kunnuglegur, að minnsta kosti í bókmenntum, á meðan heimur kvenna er enn hulinn skýjum að nokkru leyti. Af þeim sökum hef ég haft áhuga á honum“ (49).