SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. október 2017

Minningardagskrá um Ingibjörgu Haralds

Laugardaginn 21. október verður haldin vegleg minningardagskrá um Ingibjörgu Haralds í Hannesarholti sem ber yfirskriftina ,,Höfuð konunnar er..." Ingibjörg var eitt af okkar fremstu skáldum og þýðendum og hlaut hún ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Frekari upplýsingar um hana má nálgast hér á Skáld.is.

Minningardagskráin er haldin í tilefni þess að Ingibjörg hefði orðið 75 ára gömul 21. október en hún lést í nóvember í fyrra. Að dagskránni standa nokkrar af okkar fremstu skáldkonum: Auður Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Olga Guðrún Árnadóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Vigdís Grímsdóttir og munu þær lesa úr verkum Ingibjargar. Þá munu einnig tónlistarkonurnar Ingibjörg Fríða Helgadóttir söngkona og Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir píanóleikari og tónskáld stíga á stokk og flytja frumsamið lag við ljóð Ingibjargar Haralds: „Konan í speglinum.“

Minningardagskráin hefst klukkan þrjú og stendur fram eftir degi. Miðinn kostar 1.500 krónur og má nálgast hann á midi.is.