SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. október 2025

FRÆGASTA SVIKNA UNNUSTA Á ÍSLANDI

Á handritasafni Landsbókasafns Íslands- Landsbókasafni kennir ýmissa grasa. Þar má finna ýmsa texta úr völdum handritum og einkaskjalasöfnum, skrifaða upp af góðvinum handritasafns. Þökk sé Guðrúnu Ingólfsdóttur fræðakonu er þar nú brot úr kvæðasöfnum nokkurra kvenna og þ.á.m. Kristrúnar Jónsdóttur.
 
Kristrún Jónsdóttir (1806‒1881) er sennilega frægasta svikna unnustan á Íslandi enda var unnustinn sem sveik hana, Baldvin Einarsson (1801–1833), óskabarn þjóðarinnar og vonarstjarna. Hann lést ungur í bruna í Kaupmannahöfn en hafði áður orðið hált á svelli lystisemdanna þar í borg. Færri vita að Kristrún giftist á endanum, eignaðist börn og lifði í ástríku hjónabandi. Eigi að síður virðist sem hún hafi alla tíð syrgt sinn fyrri unnusta.
 
Kristrún var dóttir Þorgerðar Runólfsdóttur (1776–1857) og séra Jóns Jónssonar (1772–1866) í Stærra-Árskógi. Hún var skáldmælt og í handritasafni er varðveitt eiginhandarrit að kvæðum hennar í Lbs 4732 4to. Ekki er handritið mikið að vöxtum en það sýnir að Kristrún var prýðilegt skáld og orti hún bæði um Baldvin og eiginmann sinn, séra Hallgrím Jónsson (1811–1880).
 
 
 
 
Mynd af Kristrúnu Jónsdóttur: Ljósmyndasafn Þjóðminjasafns Íslands, Mms-35207.

 

Tengt efni