SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. október 2025

ÞRJÁR KONUR SEGJA SÖGUR AF SAKAMÁLUM

True Crime Ísland er nýtt íslenskt hlaðvarp um sakamál sem hefur slegið i gegn og rokið beint í efstu sæti hlustunarlista hér á landi.

Lögfræðingarnir og vinkonurnar Anna Einarsdóttir og Kolka B. Hjaltadóttir eru höfundar og þáttastjórnendur hlaðvarpsins. Þá tekur dóttir Önnu, Guðlaug Ásgeirsdóttir, einnig þátt en hennar hlutverk felst í að spyrja spurninga út frá sjónarhóli hlustenda til þess að þetta verði ekki einungis samtal tveggja löglærðra. Í þáttunum gera þær stöllur sér far um að rekja sögu vel valdra sakamála, útskýra dóma og það sem snýr að íslensku réttarkerfi í hverju máli fyrir sig.

Fyrsta serían ber titilinn Karlmenn sem drepa karlmenn og eru nú farnir fimm þættir í loftið en þá má finna á Spotify, Apple podcast og Youtube. Í framhaldinu stendur svo til að gera fleiri seríur, sem bera titla á borð við Ósakhæfir og Kvenmenn sem drepa.

Hér má nálgast þættina á Youtube og hér má heimsækja Facebook-síðu hlaðvarpsins.