SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 7. október 2025

Við vegg tímans

Út er komin ljóðabókin ,,Við vegg tímans" eftir hjúkrunarfræðinginn og skáldið Margréti Gísladóttur. Margrét yrki hér falleg ljóð um náttúruna. Stillir mannfólkinu upp við hlið hennar og spyr óþægilegrar spurninga.                                           

Á bókarkápu kemur fram að Margrét hefur starfað í heilbrigðiskerfinu til fjölda ára og einnig við kennslu og rannsóknir en hún er geðhjúkrunar- og fjölskyldufræðingur. Meðfram því hefur hún skrifað ljóð en hugðarefnin hafa verið áskoranir sem einstaklingurinn stendur frammi fyrir, bæði í nærumhverfi og á heimsvísu. Í mörgum ljóðanna er fjallað um ýmis viðhorf sem hafa afgerandi áhrif á mannlegt samfélag. Jafnframt hefur heimur náttúrunnar fangað hugann og samtvinnast yrkisefnum bókarinnar. 

Ljóðin eru eins og vel meitlaðar höggmyndir. Þar eru engin óþarfa orð sem flækja fyrir. Við skiljum viðhorf Margrétar til lífsins og ekki síst hennar fallegu hugsanir. Hún gefur okkar eigin hugmyndum um veruleikann nýja sýn, bætir við annarri hlið ef svo má segja sem kannski voru bara ekki margar þegar uppi var staðið. Í ljóðinu ,,Samblöndun" á bls. 62 er henni umhugað um innflytjendur, fólk sem valið hefur að koma hingað til lands í leit að betri lífi. Hvað getum við svo lengi gengið á gjafir náttúrunnar, Í ljóðinu Móður jarðar er Margrét að velta fyrir sér hvort við göngum með jörð eða hvort við göngum á hana? Hvað með nútíminn og Veraldarvefinn?

Ávextir streymdu til landsins
í skipulögðu ferli
grænmetið gaf ekkert eftir
varla nöfn á allt góssið
í orðaforða landans
og korn sem þurfti að baka
nýjar uppskriftir
 
Getum við meðtekið nýja sendingu
fólks með nýja tungu,
siði í mat, samskiptum
 
Frá jörðinni sem
fæðir fólk sem gefur,
mettar
 
Móðir
 
Ó þú móðir mín jörð
Ég sé þig í trjánum, teygja þig mót sólu
            í tungli sem speglast í lygnu vatni
            fjalli er fæðir gróður
            og fugli að tína orma
 
            þegar sjórinn færir fisk
            fossinn kraft
 
og lækur syngur þér óð
Var það tálsýn eða mynd?
Hverjir ganga með þér?
            Hverjir á þér?
 
Veraldarvefur
 
Skógurinn lagðist yfir höfuð og herðar,
fletti hugsunum lag fyrir lag, óf
silkiþráð gróðurs úr belti minninga
meðan fiðla náttúru strengdi heit háþróaðara tóna
alheims og köngluló spann vef velsældar,
gáskafull með væntingar í maganum.
 
Hlóðst upp ómur af sagnabrotum
þegar náttúran brýndi rödd sína svo allir heyrðu
og enginn komst hjá að túlka, þó hver fyrir sig
 
Sumir í skelfingu óttuðust um stöðu sína,
frelsinu afsalað
söfnuðu í skyndingu minningasprekum,
hlupu með rándýrum,
tróðu slóð sína öðrum að feta en tekin upp af vindum
 
Þegar vegir velsældar vörðuðu þyngdarlausa þræði,
hrundu múrar landa, manna,
svo æpandi auðnin í hjartanu blæddi án afláts
 
En hviðurnar léku við trén, húsin og
þráðirnir sigunets náttúru fóru á kreik
og kölluðu til löngunar
 

Við eigum að endurskoða hlutverk okkar hér á jörðu, taka tillit, fara að gefa. Í ljóðinu Vænting er Margrét að fjalla um það sem stöðugt kemur á óvart í lífinu og óvissunni sem því fylgir og af henni megum við læra. Verum æðrulaus þegar forsendur lífsins breytist.

Vænting
 
Óvissan kennir þér
að taka því sem kemur, því sem fer
því sem er
 
Breyta forsendum
ferðar í dropa fjalla
straumi foss
i faðmi lands
 
Þegar hugur genginn hamri
tekinn í hyl
greyptur í tón fugls
 
Með því sem varir
á leið
sem tjáir kyrrð

 

Ljóðin hennar Margrétar sitja eftir við lesturinn og manni langar helst til að kíkja á þau aftur og aftur, finna góðu tilfinninguna sem þau veita og skilja boðskapinn til hlítar í hverju og einu þeirra. Þessa bók vil ég eiga. Við vegg tímans er kærkomin gjöf sem Margrét hefur gefið frá sér og allir ættu að eiga.