SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 9. desember 2025

KONUR UPPSKERA RÍKULEGA: TILNEFNINGAR TIL ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNANNA

Í síðustu viku var tilkynnt hverjir eru tilnefndir til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í þremur flokkum.

 

Í flokki FAGURBÓKMENNTA voru skáldsögur eftir tvær konur tilnefndar:

Þórdís Helgadóttir fyrir LAUSALETUR en um hana segir í kynningu útgefanda:

 

 

Dularfullur faraldur herjar á heimsbyggðina og á prentsafninu hefur ekki sést gestur vikum saman. Björn og Írena drekka kaffi, endurraða í safnbúðinni og dytta að vélunum. Innra með þeim bærast langanir og eftirsjá. Þau vita ekki að einmitt þennan dag stendur borgin á heljarþröm, né að innan stundar muni óvæntur gestur birtast í anddyrinu.

 

 

Sigrún Pálsdóttir fyrir BLÁA PARDUSINN. HLJÓÐBÓK en henni er lýst svona í kynningu útgefanda:

 

Dramatísk gamansaga um hlustun og athygli, sagnfræði og skáldskap. Streymisveita hefur gefið út hljóðbók sem er innblásin af ævintýrum íslenskrar konu í Evrópu í síðari heimsstyrjöld. Hér segir frá þremur hlustendum og baráttu þeirra við að halda þræði í frásögninni sem fer um víðan völl svo erfitt er að henda reiður á hvað er skáldað og hvað ekki.

 

 

Einnig hlutu tilnefningar þeir Eiríkur Jónsson fyrir ANDRÝMI: KVIKSÖGUR, Haukur Már Helgason fyrir STAÐREYNDIRNAR og Jón Kalman Stefánsson fyrir ljóðabókina ÞYNGSTA FRUMEFNIÐ.

 

Í flokki BARNA- og UNGLINGABÓKA hlutu fimm konur tilnefningar:

 

Arndís Þórarinsdóttir fyrir SÓLGOS, sem lýst er þannig í umsögn dómnefndar:

 

„Áhrifarík og spennandi hamfarasaga þar sem lesendur fá að fylgjast með áhugaverðum sögupersónum í ógnvekjandi og spennandi aðstæðum. Höfundi tekst vel að skapa trúverðuga mynd af breyttu samfélagi og fangar athygli lesenda sem hann sleppur ekki fyrr en löngu eftir að lestri lýkur.“

 

 

 

Birna Daníelsdóttir fyrir ÉG BÝ Í RISALANDI, í umsögn dómnefndar segir:

 

 

„Hugljúf, falleg og einlæg frásögn þar sem höfundur leikur sér með form, liti og sjónarhorn. Verkið er fagurlega myndskreytt saga frá sjónarhorni barns sem lætur ekkert stoppa sig.“

 

 

 

 

Lóa Hjálmtýsdóttir fyrir RÆKJULAND, sem þannig er lýst:

 

„Fyndin og ómótstæðilega falleg hversdagssaga með skrautlegum, hlýjum og eftirminnilegum persónum. Lesendur eiga vafalaust eftir að njóta sögunnar en einnig vönduðum frágangi bókarinnar, sem býður upp á áframhaldandi skemmtun jafnvel eftir að lestri lýkur.“

 

 

Sesselía Ólafs fyrir SILFURBERG en um hana segir:

 

 

 

„Frumleg og skemmtileg saga úr heimi íslenskra ævintýra og þjóðsagna. Áhugaverðar og ólíkar persónur vinna saman í baráttu góðs við illt og úr verður hörkuspennandi saga sem hentar breiðum aldurshóp.“

 

 

Svo hlaut Elín Elísabet Einarsdóttir tilnefningu fyrir myndskreytingar í bók Ævars Þórs Benediktssonar, SKÓLASTJÓRINN. Um hana segir dómnefnd:

 

 

„Lífleg saga sem sameinar húmor, spennu og þroskasögu grunnskólanema í krefjandi en oft bráðfyndnum aðstæðum. Mikið fjör og stuð er í sögunni sem hvetur lesendur áfram á næstu síðu.“

 

 

 

Í flokki FRÆÐIBÓKA og RITA ALMENNS EFNIS voru eftirfarandi bækur tilnefndar:

 

FRÖKEN DÚLLA: ÆVISAGA eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur

 

„Höfundur hefur unnið þrekvirki með því að skrásetja ævisögu Jóhönnu Knudsen (Dúllu). Yfirheyrslum og rannsóknum Jóhönnu á ástandsstúlkum hefur verið lýst sem umfangsmestu persónunjósnum Íslandssögunnar. Dómur sögunnar hefur því óneitanlega verið henni óhagstæður á síðari árum og í því felst mikil áskorun fyrir ævisagnaritara. Í verkinu er áleitnum spurningum svarað af festu og yfirvegun. Bókin byggir á styrkum fræðilegum grunni en frásögnin er lipur, áhugaverð og spennandi.“

 

 

 

HENNAR RÖDD: SÖGUR KVENNA AF ERLENDUM UPPRUNA Á ÍSLANDI eftir Chanel Björk Sturludóttur, Elinóru Guðmundsdóttur og elínborgu kolbeinsdóttur

 

„Ákaflega metnaðarfullt og mikilvægt verk sem miðlar fjölbreyttum sögum kvenna á Íslandi sem hafa oftar en ekki átt takmarkaða rödd í opinberri umræðu. Ritstjórar hafa með mikilli næmni og virðingu fyrir viðfangsefninu safnað saman ólíkum röddum og sjónarhornum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera af erlendu bergi brotnar, en hafa um leið auðgað íslenskt þjóðlíf svo um munar, hver á sinn hátt. Bókin er bæði skrifuð á íslensku og ensku, hana prýða fallegar ljósmyndir og það tekst afbragðs vel að kynna lesendur fyrir konunum sem deila sögum sínum.“

 

 

MYND & HAND: SKÓLASAGA 1939-1999 eftir Davíð Ólafsson og Arndísi S. Árnadóttur

 

„Í bókinni er fjallað með vönduðum og áhugaverðum hætti um 60 ára sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar er dregin upp ljóslifandi mynd af mikilvægu hlutverki skólans sem var í senn kennaraskóli, listiðna-, hönnunar- og myndlistaskóli. Lifandi frásagnarhátturinn varpar skýru ljósi á söguna en bókin er einnig ríkulega myndskreytt og fangar þannig andrúmsloftið í Mynd&hand. Fallegt og fróðlegt verk sem undirstrikar ómissandi þátt skólans í menningarsögu Íslands.“

 

 

ÞEGAR MAMMA MÍN DÓ eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur

 

„Einstakt verk sem fjallar um reynslu höfundar af því að fylgja móður sinni síðasta spölinn. Um er að ræða einlæga og opinskáa lýsingu á þeim sterku tilfinningum sem kvikna í tengslum við dauðann og það að kveðja; bæði ást og umhyggju en einnig líðan á borð við samviskubit og vanmátt. Bókin á brýnt erindi við samtímann. Fjallað er um þær aðstæður sem samfélagið hefur búið dauðvona fólki og ekki síst álagið og ábyrgðina sem aðstandendur þurfa að takast á við á óumflýjanlegum tímamótum.“

 

 

 

Einnig hlaut tilnefningu bókin SPEGILL ÞJÓÐAR: FRÉTTAMYNDIR Í FIMMTÍU ÁR ... eftir Gunnar V. Andrésson og Sigmund Erni Rúnarson.

Við óskum öllum tilnefndum til hamingju.