Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙26. desember 2025
JÓLALJÓÐ III: JÓLASKEMMTUN EFTIR INGIBJÖRGU HARALDSDÓTTUR
Í jólaljóði dagsins koma álfaprinsessa og kinnhestur við sögu. Ljóðið er eftir Ingibjörgu Haraldsdóttur og birtist í Jólaljóðum þeim sem Gylfi Gröndal safnaði á bók.
Jólaskemmtun
Ég var álfaprinsessa
kjóllinn minn var hvítur
og saumuð á hann pappírsblóm
álfaprinsinn kyssti mig
og bauð mér sæti
við hlið sér
áhorfendur klöppuðu
og við hneigðum okkur
áðuren tjaldið féll
seinna vildi álfaprinsinn
kyssa mig í húsasundi
og fékk að launum kinnhest
sem allur bekkurinn hló að.
(Jólaljóð, bls. 113)

