SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 6. janúar 2026

LJÓÐAVIÐBURÐUR Í MENGI 17. JANÚAR

 
Skáldkonurnar Fríða Ísberg og Brynja Hjálmsdóttir standa að komu ljóðskáldsins Kim Hyesoon til Íslands og halda viðburð með henni í Mengi 17. janúar næstkomandi. Kim er fædd 1955 og er frá Suður-Kóreu. Hún hefur hlotið ótal verðlaun fyrir skáldskap sinn, bæði í heimalandinu sem og erlendis. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála, meðal annars á ensku, sænsku, dönsku, frönsku og þýsku. Vegna heimsóknarinnar hafa nokkur ljóða hennar verið þýdd á íslensku, af Brynju Hjálmsdóttur og Hye J. Park, eins og fram kemur hér fyrir neðan.
 
 
 
Fríða Ísberg sendi frá sér eftirfarandi skilaboð í dag:
 
 
Kæru vinir og kunningjar, stundum má hugsa stórt, sérstaklega í ljóðum, og einhvern veginn náðum við í þetta skiptið að lokka til landsins eitt stærsta ljóðskáld Suður-Kóreu, hana Kim Hyesoon. Ég komst í tæri við skáldskap Kim Hyesoon í gegnum Louisiana rásina og pantaði í kjölfarið tvær ljóðabækur eftir hana sem komið höfðu út á ensku. Þetta eru auðvitað stórskrítin ljóð, skrítin á góðan hátt, en hver setning syngur, og þegar hin danska Ursula Andkjær Olsen kom til okkar haustið 2024, þá spurðum við Brynja hana hvaða núlifandi skáld hún myndi helst vilja sjá: Kim Hyesoon. Þá vorum við einmitt nýbúnar að bóka hana til okkar; eitt og hálft ár fram í tímann.
 
Og nú er eitt og hálft ár liðið - og Kim Hyesoon væntanleg til okkar eftir ellefu daga. Bókmenntaborgin stendur tryggilega á bak við okkur og King Sejong Stofnunin - saman styrkja þau okkur um ljóðabækling með 12 þýddum ljóðum sem Brynja og Hye J. Park þýddu saman, og verður gefins á staðnum. 17. janúar, kl. 20 í Mengi - húsið opnar 19:30 og við mælum með að koma tímanlega til að tryggja sér sæti - hlökkum hrikalega mikið til að sjá ykkur!