SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir22. janúar 2026

VINNINGSLJÓÐ UNU BJARKAR KJERÚLF

Ljóð Unu Bjarkar Kjerúfl, „Framlag mitt í minningabanka nærri útdauðra hljóða", hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör í gær. Una Björk hefur áður staðið á verðlaunapalli af þessu tækifæri því árið 2021 hreppti hún þriðja sætið. 

Sigrún Björnsdóttir hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið „Vængur brýtur sér leið" og þriðju verðlaun hlaut Jón Knútur Ámundason fyrir ljóðið „Hamfarahlaup".

Að auki hlutu fjögur ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar: Sigrún Björnsdóttir fyrir ljóðið „Alltaf í blaðinu", Bjargey Ólafsdóttir fyrir ljóðið „Angistarljóð (mínar raunir og kaunir)", Ragnheiður Harpa Leifsdóttir fyrir ljóðið „Hófsóleyjar" og Ragnar H. Blöndal fyrir ljóðið „Sumt situr á hakanum".

Alls bárust 305 ljóð í keppnina að þessu sinni  og dómnefnina í ár skipuðu Guðrún Hannesdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Þórður Sævar Jónsson formaður nefndarinnar. 

Skáld.is óskar Unu Björk og öðrum verðlaunahöfum innilega til hamingju. Hér fyrir neðan má lesa verðlaunaljóðið:

 

Framlag mitt í minningabanka nærri útdauðra hljóða

Skrjuff, klonk,
fssst, dadonk.
Ég framkalla gömul bakgrunnshljóð eftir minni.
Lokhljóð úr málmgini.

Skrjuff, klonk.
Stundum fssst, dadonk
– eftir magni og undirlagi.

Hljóð sem var boðberi frétta
utan úr heimi,
úr næsta bæ,
næstu götu,
frá gömlum frænkum,
stofnunum,
pennavinum.
Innan úr draumum,
óskum og vonum
um lukku
(ef þú slítur ekki keðjuna).

Frá hendi til handar,
húsi til húss,
bárust boð.
Og heimurinn stækkaði
með hverjum skelli úr gómi ginsins.
Hægt og bítandi,
bréf fyrir bréf.
Skrifuð af natni,
skyldu,
þakklæti,
áminningu,
söknuði.
Að nóttu,
í flýti,
með lykkjum,
á útlensku,
á dulmáli,
villevekk,
virðingarfyllst,
með kærri kveðju.

Skrjuff, klonk.
Fssst, dadonk.
Hljóð óvissu og eftirvæntingar.
Eins og biðin eftir pökkum á jólum
eða skilaboð á miðilsfundi.
(Er þetta til mín?)

Hver heldur utan um gömul hljóð
sem eru við það að hverfa?
Hvaða stofnun tekur við þeim?

Ég skráset hljóðin,
færi upplifun þeirra í orð.
Póstnálægð.
Fjölrituð blöðin ber ég út,
hús eftir hús,
götu eftir götu.

Í hverfinu bergmálar
skrjuff, klonk,
fssst, dadonk.

 

Myndin er fengin af vefsíðu RÚV