Þura í Garði
Afmælisbarn dagsins er hún Þura í Garði.
Þura var fædd þann 26. janúar 1891 skv. Íslendingabók fyrir 135 árum síðan. Heimildum ber ekki alveg saman um afmælisdaginn en við látum Íslendingabók ráða hér för.
Þura var vel þekkt í sinni sveit sérlega vegna þess að hún orti vísur sem voru bæði skemmtilegar og fyndnar og þá áttu þær til að fljúga hratt um allt land. Samkvæmt heimildum þá safnaði Þura saman ýmsum þjóðlegum fróðleik og fékk á sig orð fyrir að vera alþýðufræðimaður. Hún var hagyrt og fljótyrt og snögg upp á lagið að svara fyrir sig ef henni bárust vísur sem henni hafa þótt skemmtilegar.
Það er skemmtilegt að lesa vísur Þuru og það er líka sorglegt að vita til þess að þessi hæfileikaríki hagyrðingur hafi aldrei getað sinnt hugðarefnum sínum nema að litlu leyti vegna þess að konur áttu ekki að vera að fást við kvæðagerð, voru ekki skáld og eins og í tilfelli Þuru fengu helst athygli ef vísurnar döðruðu við hitt kynið. Örfá ljóð eftir Þuru í lítilli bók sem Helgi Tryggvason bókbindari og frændi hennar gaf út árið 1939 segir svo sem ekki mikið um hana sjálfa sem skáld annað en það að vísurnar eru svo sannarlega feminískar, fyndnar og skemmtilegar.
Þura lést þann 13. júní árið 1963.
Enginn vetrarmaður í Garði
Ó, hvað hér er dauft og dautt,
drauga griðarstaður!
Vestur-rúmið alltaf autt,
enginn vetrarmaður.
Snikkarapeð
Þó hinir gangi aldrei út
og ástinni gráti´ í vasaklút,
verði gleði´ og gæfa með,
getur skeð um snikkararpeð.
Þegar snikkarapeð trúlofast
Nú er gleði´ og gæfa með.
Gráttu ekki snikkararpeð.
Axarfjörður ekkert veit,
og öllu gleymir Mývatnssveit.
Skeyti til Skagfirðinga
Leirburður frá sjálfum sér
senda þeir landið kringum.
Ekki læt ég eigna mér
æluna úr Skagfirðingum.
Svar frá Skagfirðingum
Enginn skylda ætla þér
illu málalokin,
en það, sem alveg þrotlaust er,
er Þingeyinga hrokinn.
Skeyti til G. ST
Ég veit það ekki´, en veit þó nóg,
hvernig vigtaði þverbakspoki,
væri yfir eina dróg
okkar beggja hroki.
Drengurinn ekki væri´ í vanda
ef verja þyrfti mál.
En skilja milli skrokks og anda
er skrítið ástamál.
Kv
Magnea
