SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir30. apríl 2019

Fjórar skáldkonur tilnefndar til Maístjörnunnar

Tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar í gær í Gunnarshúsi en Maístjarnan er sérstök ljóðabókaverðlaun, eingöngu veitt fyrir íslenskar og útgefnar ljóðabækur. Fjórar skáldkonur hlutu tilnefningar, þær Ásdís Ingólfsdóttir fyrir Ódauðleg brjóst, Eva Rún Snorradóttir fyrir Fræ sem frjóvga myrkrið, Gerður Kristný fyrir Sálumessu og Linda Vilhjálmsdóttir fyrir Smáa letrið. Auk þeirra var Haukur Ingvarsson tilnefndur fyrir Vistarverur og Sigfús Bjartmarsson fyrir Homo economicus I.

Dómnefnd fékk til umfjöllunar allar íslenskar ljóðabækur sem komu út á síðasta ári og skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Í dómnefnd sitja Sveinn Yngvi Egilsson, fyrir hönd Rithöfundasambandsins, og Eva Kamilla Einarsdóttir, fyrir hönd Landsbókasafnsins. Berja má ljóðabækurnar augum í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar þar sem þær verða til sýnis.

Maístjarnan var fyrst veitt árið 2017, og því er þetta í þriðja skiptið sem þau verða afhent. Athöfnin verður í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí næstkomandi, á degi ljóðsins, og er verðlaunaféð 350 þúsund krónur.