SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. maí 2019

Meðgönguljóð - endahnútur og úrvalssafn

Í gær var bundinn endahnútur á starfsemi seríu Meðgönguljóða með heljarinnar hátíð í Listasafni Einars Jónssonar. Því samfara var fagnað útgáfu úrvalssafns Meðgönguljóða með völdum ljóðum úr öllum bókum flokksins en út hafa komið 33 verk á árunum 2012-2018.

Nafn Meðgönguljóðaseríunnar var sótt í ,,takeaway-kaffi" og voru bókarkápur lengi vel auðkenndar með brotna kaffihringnum sem bollinn á til að skilja eftir sig. Valgerður Þóroddsdóttir og Kári Tuliníus stofnuðu bókaflokkinn, ásamt Sveinbjörgu Bjarnadóttur, og ritstýrðu flestum bókunum framan af. Þegar Valgerður stofnaði Partus árið 2015 tóku Kristín Svava Tómasdóttir og Þórður Sævar Jónsson við ritsjórninni, ásamt Kára Tuliníus.

Þau ljóðskáld sem eiga ljóð í safninu, og áttu heimangegnt á viðburðinn, fluttu vel valið ljóð úr úrvalssafni Meðgönguljóða. Kristín Svava Tómasdóttir kynnti ljóðskáldin með því að grípa niður í skemmtilegt spjall hennar og Þórðar Sævars um ljóðabækurnar, sem er prentað í eftirmála úrvalssafnsins.

Fyrst stigu á stokk Valgerður Þóroddsdóttir og Kári Tuliníus og síðan hvert ljóðskáldið á fætur öðru, en þar voru skáldkonur í miklum meirihluta: Arngunnur Árnadóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Björk Þorgrímsdóttir, Bergþóra Einarsdóttir, Kristófer Páll Viðarsson, Þórður Sævar Jónsson, Valgerður Þóroddsdóttir, Kári Tuliníus, Elías Knörr, Sigurbjörg Friðriksdóttir, Þorvaldur S. Helgason, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Elín Edda, Solveig Thoroddsen, Megan Auður, Jónas Reynir Gunnarsson, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Tryggvi Steinn Sturluson, María Ramos, Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir og Sigrún Ása Sigmarsdóttir.

Meðgönguljóð hafa reynst heppilegur vettvangur fyrir skáld til að taka sínu fyrstu skref út á ritvöllinn og er skemmst að minnast þess að nýlega hlaut Ásdís Ingólfsdóttir tilnefningu til Maístjörnunnar fyrir bók sína Ódauðleg brjóst. Það er því mikil eftirsjá að bókaflokknum en vonandi tekur einhver við keflinu og leitast við að gefa óreyndum skáldkonum pláss.

Efsta röð f.v.: Kristín Svava Tómasdóttir, Arngunnur Árnadóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Björk Þorgrímsdóttir og Bergþóra Einarsdóttir.

Miðröð f.v.: Valgerður Þóroddsdóttir, Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir, Elín Edda, Solveig Thoroddsen og Megan Auður.

Neðsta röð f.v.: Guðrún Heiður Ísaksdóttir, María Ramos, Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir og Sigrún Ása Sigmarsdóttir.