SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. október 2017

Ávarp til Abrahams - Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Elísabet Kristín Jökulsdóttir

Að þessu sinni er ljóð vikunnar á Skáld.is glænýtt ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem hefur hvergi birst áður. Frekari upplýsingar um skáldkonuna má finna í skáldatali hér á Skáld.is.

Ávarp til Abrahams

I

Abraham, í fjögur þúsund ár,

heyrirðu! Fjögur þúsund ár.

Er ekki kominn tími til

að gleyma þér,

þurrka þig út,

byrja upp á nýtt.

Abraham, hvern djöfulinn á þetta að þýða,

hverju ertu búinn að koma til leiðar,

þú sem varst tilbúinn að fórna syni þínum,

hvílík bilun, þú sem trúðir konunni þinni

þegar hún níræð var orðin ólétt,

hvaða rugl er þetta og á þessu byggist heimur minn,

hálfbræður berjast, er það þetta sem fær blóðið í þér

til að þjóta fram í æðarnar

gamli geðveiki ættarhöfðingi,

gastu ekki verið kyrr þarna þaðan sem þú komst

í Mesópótamíu, hvað fór eiginlega af stað með þér,

Abraham, út

út og láttu ekki sjá þig hérna

aftur.

Abraham, ef ég strika þig út úr sögubókunum,

brýt niður hofin þín,

hvað er þá eftir? Blærinn, gróandinn,

lykt af hafi og klístrað blóð

í hárinu.

Abraham ef þú lætur sjá þig hérna aftur hringi ég á lögregluna og

læt sækja þig, ég veit sosum alveg hvað þeir segja: Lætur hún oft

svona.

Í fjögur þúsund ár hefur þú gengið um á jörðinni og skvett blóði í

allar áttir, limlest heilu þjóðirnar, máð þær út, svelt börnin, er ekki

kominn tími á að þú fáir hvíldina Abraham enda veit enginn hvort

þú varst til.

II

Í fjögur þúsund ár Abraham

hefur þú fórnað syni þínum

daglega, á hverjum degi ganga blóðgusurnar í allar áttir

hendur hans og fætur spýtast af stallinum

og hausinn rúllar sína leið

djonk djonk djonk

af því þú ert svo bilaður Abraham

þú ert svo fökking djöfull fökking bilaður

þú ert kolgeðveikur

láttu mig þekkja það,

ég hef haft svona raddir í höfðinu

ég er dóttir þín.