Fræ sem frjóvga myrkrið hlýtur Maístjörnuna
Ljóðabókin Fræ sem frjóvga myrkrið eftir skáldkonuna Evu Rún Snorradóttur hlýtur Maístjörnuna í ár. Ljóðabókaverðlaunin voru afhent við hátíðlega dagskrá í Þjóðarbókhlöðunni á mánudaginn var en aðrar tilnefndar bækur voru Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur, Sálumessa eftir Gerði Kristnýju og Smáa letrið eftir Lindu Vilhjálmsdóttur, ásamt Vistarverum eftir Hauk Ingvarsson og Homo economicus I eftir Sigfús Bjartmarsson.
Þetta er í þriðja sinn sem ljóðabókaverðlaunin Maístjarnan eru veitt en að þeim standa Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands. Allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2018 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands voru gjaldgengar. Í dómnefnd sitja Sveinn Yngvi Egilsson og Eva Kamilla Einarsdóttir en rökstuðningur þeirra fyrir valinu er eftirfarandi:
„Fræ sem frjóvga myrkrið (Benedikt bókaútgáfa, 2018) er frumleg og fjölbreytt ljóðabók þar sem skáldið Eva Rún Snorradóttir bregður á leik með ýmis form, allt frá örleikritum til prósaljóða. Fyrri hluti bókarinnar er margradda lýsing á ferð vinkvenna til sólarlanda sem reynist í senn nöturleg og fyndin. Síðari hlutinn er einlægari og myndrænni og þar eru ljóð sem lýsa vináttu, sársauka, sjálfsuppgötvun og annarlegum heimi á áleitinn hátt. Þannig beitir Eva Rún ólíkum sjónarhornum og formum sem sameina hið ljóðræna og leikræna og nær með því að draga upp sterka og margræða mynd af heiminum sem hreyfir við lesandanum.“
Hér má hlýða á Evu Rún flytja ljóðið Vinátta kvenna úr verðlaunabókinni.
Skáld.is óskar Evu Rún innilega til hamingju með verðlaunin.