SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 9. júní 2019

Hórdómur, hjónaskilnaður, barnamorð og rán - Hið illræmda Skárastaðamál í nýrri bók Önnu Dóru

Þar sem skömmin skellur eftir Önnu Dóru Antonsdóttur

Út er komin bókin Þar sem skömmin skellur eftir Önnu Dóru Antonsdóttur hjá Espólín forlagi.

Um er að ræða sagnfræðilegt verk um eitt af forvitnilegri sakamálum Íslandssögunnar, Skárastaðamálið svokallaða, sem gerðist fyrir hartnær 160 árum og tengist bænum Skárastöðum í Austurárdal í Miðfirði. Bókin byggir á dómabókum og fleiri samtímaskjölum, en þar sem gögnum sleppir tekur höfundurinn við og fyllir upp í eyðurnar.

„Ég veit ekki hver andskotinn gengur á hér frammi í Miðfjarðardölum, ef það eru ekki hórdómur og hjónaskilnaður þá eru það barnamorð og útburður, svo ekki sé talað um kindadráp, sauðaþjófnað og rán."

Anna Dóra Antonsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur,

 

Þessi orð mælir Kristján sýslumaður í Húnavatnssýslu árið 1864 í nýútkominni bók Önnu Dóru. Í viðtali við Feyki segir höfundur að grein eftir Sverri Kristjánsson hafi kveikt áhuga sinn á málinu.

„Um Illugastaðamál hafa verið skrifaðar margar bækur en engin um Skárastaðamálin sem voru á ferðinni 

30 árum seinna. Páll Kolka læknir sagði í bók sinni Föðurtún að Skárastaðamálið væri hið síðasta í röð þeirra illræmdu glæpamála, sem voru á döfinni í Húnavatnsþingi á 19. öld.“

Bókin er til sölu í bókabúðum Eymundsson á Ísafirði, Keflavík og Akranesi og í bókabúð Forlagsins að Fiskislóð í Reykjavík. Einnig er að hægt er að panta bókina beint frá útgefanda með því að senda póst á espolin@espolin.is.

Anna Dóra Antonsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, hefur gefið út tíu bækur og sinnir nú ritstörfum og þýðingum við Reykjavíkurakademíuna. Nánari upplýsingar má finna í Skáldatali.

 

Ása Jóhanns