Lilja Sigurðardóttir hlaut Blóðdropann öðru sinni
Í gær hlaut Lilja Sigurðardóttir Blóðdropann 2019, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir bók sína Svik og er þetta annað árið í röð sem hún hreppir verðlaunin. Í fyrra fékk hún verðlaunin fyrir Búrið sem var lokahnykkur á æsispennandi þríleik. Lilja er ennfremur önnur konan sem hlýtur verðlaun Hins íslenska glæpafélags en þau komu í hlut Yrsu árið 2015. Verðlaunabókin Svik verður síðan tilnefnd sem framlag Íslands til Glerlykilsins sem besta norræna glæpasagan, líkt og Búrið í fyrra.
Dómnefnd Blóðdropans í ár skipa Vera Knútsdóttir, formaður, Páll Kristinn Pálsson og Kristján Atli Ragnarsson. Þau töldu helsta vægi sögunnar vera margslungin fléttan sem nyti sín í öruggum höndum höfundar. Auk þess prýddi söguna ríkulegt persónugallerý sem megi segja að sé stærsti kostur Lilju sem sé sérstaklega góð í að skapa sannfærandi persónur sem hrífa lesandann. Þá sverji sagan sig í ætt við skandinavísk ættmenni sín á sviði glæpabókmennta og sé í senn vel skrifuð og æsispennandi.
Skáld.is óskar Lilju innilega til hamingju.