SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn19. október 2017

Ritþing í Gerðubergi - Vilborg Davíðsdóttir

Vilborg Davíðsdóttir

Gerðuberg hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu um ritþing haustins sem fram fer laugardaginn 21. október frá kl. 14 - 16.30: ,,Á ritþingi haustsins í Gerðubergi er höfundurinn Vilborg Davíðsdóttir gestur. Stjórnandi þingsins er Auður Aðalsteinsdóttir og spyrlar eru Silja Aðalsteinsdóttir og Sverrir Jakobsson. Ritþing Gerðubergs hafa verið haldin frá árinu 1999 og eiga fastan sess í menningarlífi borgarinnar. Á ritþingi situr rithöfundur fyrir svörum stjórnanda og tveggja spyrla í léttu og persónulegu spjalli, leikin er lifandi tónlist sem tengist höfundi og lesið upp úr verkum hans. Á þennan hátt gefst lesendum og áheyrendum einstakt tækifæri til að öðlast persónulega innsýn í líf og feril rithöfundarins, kynnast persónunni á bakvið verkin, viðhorfum hans og áhrifavöldum. Fyrsta skáldsaga Vilborgar, Við Urðarbrunn, kom út árið 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir, en þær gerast um aldamótin 900. Í skáldsögunum Eldfórninni, Galdri og Hrafninum leitaði Vilborg aftur til 14. og 15. alda, en Hrafninn, sem gerist á Grænlandi, var árið 2005 tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Árið 2009 sendi Vilborg frá sér skáldsöguna Auði, fyrsta bindið í þríleik sínum um Auði djúpúðgu, sem einnig var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Annað bindið, Vígroði, kom úr árið 2012 en í tengslum við ritþingið kemur út hjá Forlaginu síðasta bindið í þríleiknum, Blóðug jörð. Vilborg sendi árið 2015 frá sér sannsöguna Ástin, drekinn og dauðinn. Tónlist á ritþinginu flytja Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson. Ritþingin eru hljóðrituð og gefin út rafrænt á heimasíðu Borgarbókasafnsins. Þingin eru því ekki aðeins ánægjuleg upplifun þeirra sem hlusta á staðnum heldur einnig varanleg heimild um viðkomandi rithöfund. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Borgarbókasafnið býður til móttöku að ritþingi loknu." Nánari upplýsingar veitir: Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri á Borgarbókasafninu, sunna.dis.masdottir@reykjavik.is, s. 411 6109

 

Ása Jóhanns