SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. júní 2019

„Óskahallir aldrei ég mun byggja...“

Ásdís Jóhannsdóttir var ung námsmær sem lagði stund á efnafræði við háskóla í Göttingen og Darmstadt í Þýskalandi og miklar vonir voru bundnar við. Hún orti svo leikandi létt að haft var á orði að nú mættu aðrir hagyrðingarnir hætta að yrkja. Hún lést árið 1959, aðeins 26 ára að aldri en ekki er getið um dánarorsök hennar. Sjá nánar í skáldatali.

Ljóð dagsins er eftir Ásdísi.

ÓSKAHALLIR

Óskahallir aldrei mun ég byggja um ævi framar þreyttum ferðalang. Okkar leiðir aldrei saman liggja, önnur kona gista mun þitt fang. Ef gæfan ætíð brosir við þér bjarta og bestu óskir færir þér í skaut, af þinni gleði hlæja vill mitt hjarta þótt hryggðin um það leggi sína braut. En vilji sorgin vegi þína troða, ég vildi megna að bægja henni frá og hvert þitt fótmál ástarrósum roða svo reynist braut þín ei jafn hörð og grá. Þótt fallvalt reynist flest í vorum heimi og fölni að lokum bæði vangi og rós, innst í hjarta alla tíð ég geymi þá ást til þín sem varð mitt gæfuljós.

(Úr bókinni Vængjaþytur vorsins, 2002)