SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir14. júlí 2019

FÍASÓL ER FLOTTUST!

 

Framlag skáldkonunnar Kristínar Helgu Gunnarsdóttur til barnabókmennta er ómetanlegt. Þekkja ekki allir afa Gissa, Binnu, Fíusól og Móa hrekkjusvín?

„Fíasól er frumleg, sjálfstæð og skemmtileg stelpa sem hefur sigrað hjörtu íslenskra barna. Hún býr í Grænalundi í Grasabæ, glímir við heimalærdóminn, meiðir sig í sundi og dreymir skrýtna drauma um sjóræningja. Hún fer líka stundum í sveitina til ömmu og afa í Poka með systrum sínum, Biddu og Pippu. Sögurnar í bókinni eru á léttum nótum, fullar af húmor sem bæði börn og foreldrar skilja. Boðskapur bókarinnar er bæði umhverfis- og fjölskylduvænn og ljóst að krakkar geta haft á réttu að standa og vita meira að segja sumt betur en fullorðnir. Í kafla sem heitir Tækjalausi dagurinn ákveður Fíasól t.d. að nota engin tæki sem ganga fyrir annarri orku en þeirri sem hún getur framleitt sjálf. Og það er erfitt fyrir litla stýrið, sérstaklega þegar foreldrarnir nenna helst ekki að standa í því með henni. Vel er leyst úr erfiðum málum eins og fráfalli heimilisvinarins Hansínu og spurningunni um tilvist jólasveina. Myndskreytingar Halldórs Baldurssonar eru frábærar og falla að efninu eins og flís við rass. Aðdáendur Fíusólar hafa beðið spenntir eftir framhaldi á ævintýrum hennar og verða ekki fyrir vonbrigðum, enda er Fiasól bara flottust!“ skrifaði Steinunn Inga Óttarsdóttir um Fíusól í Mbl. 2008.

Tengt efni