SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. ágúst 2019

Ljóðagjörningar heima og erlendis

Skáldkonan Eyrún Ósk Jónsdóttir mun á næstu vikum flytja tvo ljóðagjörninga, hvorn í sínu landinu.

Menningarnótt

Hinn fyrri er á dagskrá á Menningarnótt, laugardaginn 24. ágúst. Þá flytur Eyrún Ósk ljóð við afrískan trommuleik Akeem Richard en Akeem er þekktur hér á landi fyrir störf sín í þágu fjölmenningar. Verkið ber yfirskriftina Serimónía: ljóð og afrískur trommusláttur og fjallar m.a. um flóttamenn og umhverfisvernd. Flutningur þess tekur um fjörutíu mínútur en áhorfendum gefst kostur á að taka þátt á meðan og að flutningi loknum verður boðið upp á spjall. Frekari upplýsingar um viðburðinn má nálgast hér.

Finnland

Seinni gjörningur Eyrúnar Óskar fer fram á listahátíð í Finnlandi þann 6. september. Hann kallast Poetry meditation on peace and love og er áhrifamikil ljóðahugleiðsla um frið og kærleika sem Eyrún Ósk flutti í fyrra á Friðardögum Reykjavíkurborgar. Þetta verður í fyrsta skipti sem Eyrún Ósk flytur ljóð sín erlendis. Hér má sjá frekari upplýsingar um viðburðinn í Finnlandi.