SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. ágúst 2019

Hinsegin verðlaunaljóð

Í gær var tilkynnt á Hýrum húslestrum í Tjarnarbíói hvaða skáld hrepptu verðlaunin í Ljóðasamkeppni Hinsegin daga. 56 ljóð bárust keppninni en í dómnefnd sátu Ásta Kristín Benediktsdóttir, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Viðar Eggertsson. Verðlaunin komu í hlut þriggja kvenna: Fyrstu verðlaun fékk Anna Gyða Sigurgísladóttir fyrir ljóð sitt Tartufo nero, önnur verðlaun komu í hlut Brynhildar Yrsu Valkyrju fyrir ljóðið Sláturfélag Suðurlands og þriðju verðlaun hlaut Þórdís Gísladóttir fyrir ljóðið Við Faxaflóa. Þórdís gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til þess að birta verðlaunaljóðið hennar:

Við Faxaflóa

Útsýnið til sjávar verður óhindrað þar sem ég geymi þig í einangrun en góðu yfirlæti með snjallsíma, værðarvoð og leyfi til að reykja undir eldhúsviftunni. Fjallasýn mun gleðja, ofbirtu stafa af geislandi hafi á góðum dögum. Þú liggur í rúmi með hníf, skæri og sporjárn undir koddanum, í von um að dreyma lausnmiðaða drauma. Þú bíður eftir að ég komi úr sundi, bakaríi, eða frá tannlækni, færi þér melatónín og rauðvín, segi gamansögur, lýsi líkamlegri hrörnun, baktali sukkbremsur, fólk sem hefur metnað fyrir konseptum og notar illa valin orð. Andardrættir okkar örari en eðlilegt getur talist, í nýlegu húsi þar sem aldrei hefur verið framið morð, bjóðum við hvor annarri bólgueyðandi samtalsmeðferð, strjúkum örin á líkömum okkar með umferðargný sem undirleik og flýtum hægt fyrir okkur þar sem útsýnið til sjávar er óhindrað.