SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn11. ágúst 2019

Hlutskipti kvenna í heimi karlveldis

Í síðustu viku var endurfluttur á rás 1 lestur Sólveigar Kr. Einarsdóttur á smásögunni „Ómótstæðilegt mjólkurbú“ úr smásagnasafninu Sögur Sólveigar sem kom út árið 1991. Sólveig hlaut verðlaun Almenna bókafélagsins fyrir smásagnasafnið en um það skrifaði Jenna Jensdóttir ritdóm í Morgunblaðið sem við endurbirtum hér að neðan. Sólveig Kr. Einarsdóttir er komin í skáldatalið og má lesa meira um hana hér.

Sögur Sólveigar

Sögur þessar eru sextán að tölu og er efni þeirra að mestu sótt í hugarheim kvenna. Þær gerast ýmist á Íslandi eða í Ástralíu, þar sem höfundur býr nú.

Við heildarúttekt á sögunum virðist mér að ellefu þeirra skipi sér saman að efni til, þar sem hlutskipti kvenna í heimi karlaveldis er rauði þráðurinn. Endalausar pælingar kvennanna eru oftast á tilfinningalegum grundvelli þar sem karlmaðurinn er miðpunktur hugsana, stundum svikull, torræður, ómögulegur - en þó eftirsóknarverður. Geðlægur órói virðist oft stjórna hugsunum þeirra, þá er óskhyggja ekki langt undan. Þær eru uppteknar af sjálfum sér, óttast um velferð sína í samskiptum við hitt kynið, sem virðast líka í flestum tilfellum heldur vonlítil. Enda karlmennirnir í þessum sögum lítt eftirsóknarverðir.

Börn koma hér lítið við sögu, sem er ofureðlilegt þar sem naumast örlar á þeirri ást sem einkennist af fórnfýsi og einlægri samkennd í mannlegum skiptum.

Oftlega hleður ofurmagn tilfinninganna upp vandamálum sem skapast vegna ástar eða ástleysis. Veldur sektarkennd og geta þá hugsanir snúist svo í andhverfu að óskhyggja býr til dauðadóm, sem rætist. Vonbrigði og ráðleysi setja sinn svip á sögurnar, sem nokkrar eru eins og sveipaðar dulrænu, sem ekki er á valdi lesanda að ráða í. Áðurgreindir þættir vega misþungt í hverri sögu.

Sögurnar fimm sem eftir er að geta um hér koma eins og úr annarri átt og sýna að mínu mati betur hve Sólveig er skyggn á fjölbreytileika lífsins. Þar beitir hún hárfínum aðferðum til þess að ná allri athygli lesanda - og henni tekst það.

Í þessum sögum leitar hún í verund lífsbaráttunnar. Í sögunum á bls. 33 og 56 lýsir hún samúð og sársauka mannsins í návígi við þrotlausan lífsháska dýranna og varnarleysi þeirra. Þar er samspil lífs og dauða sérlega vel útfært.

Sagan á bls. 80 byggir á fölskvalausri gleði sem tendrast fyrir skilning á hugarangri og löngun maka sem hefur orðið fyrir vonbrigðum með viðtökur á hugverki sínu. Sagan á bls. 111 er í bland eilítið skopleg vegna síngirnisáráttu bónda nokkurs gagnvart konu sinni, dugmikilli og vel upplýstri. Og sagan á bls. 21 er trúverðug og grípandi, þar sem segir frá ungum kvenlækni er helgar eingöngu starfi sínu líf sitt og krafta.

Sólveig er slyngur höfundur sem knýr lesendur til umhugsunar í öllum sögum sínum. Það er ekki á allra færi og því virðist réttlátt að gera þær kröfur til hennar að hún láti ekki staðar numið hér. Sögurnar eru á góðu máli.

Kápumynd er eftir Margréti Ingólfsdóttur, í henni býr dulúð.

Ritdómur Jennu Jensdóttur birtist í Morgunblaðinu 21. desember 1991.