SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. ágúst 2019

„Nú á ég enga mömmu“

Komin er út ljóðabókin Sofðu mín Sigrún og er hún fyrsta ljóðabók Hlífar Önnu Dagfinnsdóttur. Ljóðin eru átakanleg lesning því þarna kveður Hlíf Anna dóttur sína sem lést árið 2014 úr krabbameini, aðeins 39 ára gömul. Hlíf Anna hefur bæst við sívaxandi Skáldatalið.

Hér má lesa tvö ljóð eftir Hlíf Önnu, hið fyrra er úr fyrrnefndri ljóðabók en það seinna hlaut viðurkenningu ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar og mun rata í næstu ljóðabók skáldkonunnar.

Skáld.is óskar Hlíf Önnu til hamingju með bókina og hlakkar til að fá þá næstu í hendur.

Við dánarbeð

ungur drengur horfir á móður sína

honum er sagt að hún sofi

hann veit betur

tárvotum augunum horfir hann í kring um sig

og segir

nú á ég enga mömmu

 

Alltaf að bíða

það er vor

ég sit við gluggann

tærir daggardroparnir

dansa

á nýútsprungnum fíflunum

sem kúra sig við húsvegginn

móða á glugga – andardráttur minn

ég horfi á konurnar ganga hjá

hlusta á fótatak þeirra

bíð og vona

þú komst ekki í gær

kemur þú í dag

endalaust ganga konur hjá glugga