SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn15. ágúst 2019

„PENNINN MINN OG ÉG“ - Um Jennu Jensdóttur

Jenna Jensdóttir fæddist 24. ágúst árið 1918 og lést á Hrafnistu í Reykjavík þann 6. mars 2016, 97 ára að aldri. Eftir hana liggur mikill fjöldi barna- og unglingabóka en hún er hvað þekktust fyrir Öddubækurnar sem voru gríðarlega vinsælar og seldust í yfir 60 þúsund eintökum. Einnig lét hún sig menntamál barna varða en hún kenndi börnum og unglingum í áratugi. Jenna var í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar, stundaði nám við Kennaraskólann og nam einnig við Háskóla Íslands. Hún stofnaði Hreiðarsskóla árið 1942 ásamt eiginmanni sínum, Hreiðari Stefánssyni, kenndi við Barnaskóla Akureyrar, Langholtsskóla og Barnaskóla Garðabæjar svo eitthvað sé nefnt. Í þætti sem Stöð 2 lét gera um Jennu árið 2015 kemur fram að Jenna skrifaði enn á hverjum degi þrátt fyrir háan aldur og hún handskrifaði texta sína alla tíð. Í þættinum segir Jenna: „Ég hef aldrei lært á ritvél. Ég hef aldrei haft Facebook. Ég hef aldrei haft farsíma eða neitt sem gildir. Ég hef bara sjálfa mig og pennann minn. Penninn minn og ég,“ Hér má lesa meira um þessa merku konu.

 

Sigríður Albertsdóttir

 

Tengt efni