SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn16. ágúst 2019

Kvikukantatan

Ingibjörg Elsa Björnsdóttir hefur sent frá sér nýja ljóðabók sem ber titilinn Kvikukantatan. Þetta er önnur ljóðabók Ingibjargar en hún hefur einnig sent frá sér tvö smásagnasöfn og þýðingar. Ingibjörg sækir efnivið ljóðanna í ýmsar áttir og yrkir um trúna, náttúruna, ástina og söguna, svo fátt eitt sé nefnt. Tilvísanir til bæði erlendra sem íslenskra bókmennta koma víða fyrir, dæmi um hið síðarnefnda er ljóð sem hefur að geyma öfluga sjálfsmynd og ber titilinn: Ég heiti Ingibjörg og ég er ljón.

Ljóð Ingibjargar spanna vítt tilfinningaróf og augljóst er að hún hefur gott vald á ljóðrænu tungumáli og formi.

Skáld.is óskar Ingibjörgu Elsu til hamingju með nýju bókina sem fjallað verður nánar um síðar.

Í Kvikukantötunni er meðal annars að finna þetta skemmtilega ljóð um ýmislegt sem verður skáldinu innblástur til sköpunar:

Innblástur

Fór í Bókakaffið.

Þar sat skáldagyðjan

að leysa sudoku.

Datt um Pétur Gaut,

grænan og máðan

á kilinum.

Fyrr en varði

lukust upp lendur goðsagna

og skáldskapar.

Ég tók andköf

horfðist í augu

við Milton og Blake

- var í félagsskap

með englum.

Er ég leit upp

var skáldagyðjan

horfin inn í tölvuna

þar sem hún

lagðist yfir fésbókina

eins og bláleit móða

úr myrkum eldum

í Vatnajökli.