Meiri sand
Ljóðahópinn Tásurnar skipa þau Ágúst Ásgeirsson, Jóhann G. Thorarensen og Jóna Guðbjörg Torfadóttir en hún er annar ötulla ritstjóra skáld.is.
Jóna er með M.A. próf í íslenskum bókmenntum og M.A. próf í kennslufræði. Hún hefur starfað í rúman áratug sem íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund. Jóna hefur fengist nokkuð við ritstörf og þýðingar og sent frá sér fræðigreinar, skáldverk og kennsluefni.
Í þessari bók gefur að líta afrakstur hátt í sex ára ljóðasamstarfs Tásanna. Yrkisefnin eru fyrirfram valin, ólík og óvænt, og hefur hvert skáld sinn háttinn á. Í bókinni er að finna töluvert af kaffi og bakkelsi, en einnig ýmislegt sterkara. Skáldin yrkja um ást, æsku og örlög en einnig skáldskapinn sjálfan og stellingarnar sem þarf til að nálgast hann.
Ákveðin þemu og orð skjóta upp kollinum í ljóðum þeirra allra, en nálgunin er gjarnan gjörólík. Úr verður mismunandi sýn á sömu hluti, séð frá annarra tám.
Ljóð dagsins er eftir Jónu Guðbjörgu.