Gleðilönd ástarinnar
Aðalheiður Karlsdóttir frá Garði í Ólafsfirði (1914-1996) er kona dagsins. Hún hóf að skrifa skáldsögur þegar hún var 66 ára að aldri og nutu bækur hennar mikilla vinsælda. Hún er oft nefnd í sömu andrá og mæðgurnar Guðbjörg Hermannsdóttir, Snjólaug Bragadóttir og Birgitta Halldórsdóttir en þær eru allar af Norðurlandi og vinsælir höfundar ástarsagna og afþreyingarbókmennta. Um 1980 var mikið rætt um vinsældir þessara bókmennta í fjölmiðlum sem sumum þótti nóg um. Talaði Gunnlaugur Ástgeirsson í ritdómi um „norðlenska skólann“ í þessu tilliti og greindi ástæður vinsældanna svo:
„Karlmönnum eru reyfararnir og hetjulíferni þeirra uppbót á gráan hversdagsleikann og tilbreytingarlaust líf. Samsömunin við hetjuna eykur sjálfsálit og trúna á eigin karlmennsku, a.m.k. á meðan á lestrinum stendur og á eftir eru menn endurnærðir og tilbúnir til þess að takast að nýju á við erfiða tilveru. (Sumir myndu trúlega segja að þeir væru þá sáttari við að láta kúga sig og arðræna í kapitalísku hagkerfi). Kvenfólkinu eru þá ástarsögurnar uppbót á óhamingjusamt líf og ástlaust hjónaband. Þær geta gleymt sér í faðmi hetjunnar miklu um stund og látið hugann reika um gleðilönd ástarinnar þar sem óheftar ástríðurnar fá að blómgast. Eftir lesturinn eru þær svo endurnærðar og betur í stakk búnar til þess að hverfa aftur til hversdagsleikans með fúlan kall og grenjandi krakka. (Sumir myndu þá sjálfsagt segja að þær væru þá sáttari við að þola og þreyja möglunarlaust kvennakúgun karlrembusamfélagsins).“
Aðalheiður bætist nú í Skáldatalið, númer 296.