Gombri lifir í Gallery Port
Þessa dagana stendur yfir sýningin Gombri lifir í Gallery Port. Til sýnis eru blaðsíður úr nýútgefinni samnefndri 176 blaðsíðna myndasögu eftir Elínu Eddu, sem gefin er út í 200 eintökum. Sýningin stendur til 19. september.
Gombri lifir er sjálfstæð framhaldsbók í myndasöguseríunni um Gombra, dularfulla veru í háskafullum heimi sem skeytir engu um örlög Móður Jarðar. Í nýju bókinni er stígandin þyngri, ábyrgðin meiri og kallast hún þannig á við ógnina sem raunverulega steðjar að Móður Jörð. Gombri lifir er ríkulega myndskreytt bókverk sem býður lesendum sínum skjól frá hversdeginum í hugvekju um náttúruna og lífið – á sama tíma og hún talar beint inn í samtímann. Elín Edda (1995) útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2018. Hún hefur gefið út fjórar myndasögur, Plantan á ganginum (meðhöfundur: Elísabet Rún) (2014), Gombri (2016), Glingurfugl (2018) og Gombri lifir (2019) auk þess sem Partus Press gaf út ljóðabók hennar Hamingjan leit við og beit mig árið 2016. Gombri var gefinn út á frönsku af Éditions Mécanique Générale í Kanada fyrr á þessu ári og ensk þýðing hjá Partus Press í Bretlandi er í undirbúningi.Glingurfugl hlaut nemendaverðlaun FÍT á Hönnunarmars síðastliðnum. Í sumar hefur Elín Edda dvalið í rithöfundaíbúð á Stykkishólmi á vegum Artangel.
Hægt er að hafa samband við Elínu Eddu í síma 849 8123.