SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. desember 2019

Upplestrar á aðventu

Jólavertíðinni fylgja útgáfuteiti og upplestrar út um borg og bý. Þó nokkuð sé liðið á aðventuna er ekki öll nótt úti enn. Hér eru nefndir fáeinir viðburðir næstu daga sem lofa góðu:

Í kvöld lesa átta ljóðskáld upp úr verkum sínum í Ljóð og með því í Gröndalshúsi. Ásta Fanney Sigurðardóttir les úr Eilífðarnón, Brynja Hjálmsdóttir les úr Okfrumunni, Fríða Ísberg les úr Leðurjakkaveðri, Kristín Eiríksdóttir les úr Kærastinn er rjóður, Melkorka Ólafsdóttir les úr Hérna eru fjöllin blá og Þórdís Gísladóttir les úr Mislægum gatnamótum. Þá lesa Brynjólfur Þorsteinsson úr Þetta er ekki bílastæði, Jónas Reynir Gunnarsson les úr Þvottadegi og Þorvaldur Sigurbjörn Helgason les úr Gangverki. Lesturinn stendur milli 20-22.

Á morgun, fimmtudagskvöldið, 12. desember, verður boðið upp á Bækur sem breyta heiminum: Höfundakvöld í Gunnarshúsi og stíga þar á stokk höfundar barna- og ungmennabóka. Þar les Brynhildur Þórarinsdóttir úr bók sinni Ungfrú fótbolti, Sigrún Elíasdóttir úr Leitinni að vorinu og Arndís Þórarinsdóttir úr Nærbuxnanjósnurunum. Þá les Ævar Þór Benediktsson úr Þinn eigin tölvuleikur. Viðburðurinn stendur frá 20-21:30.

Kvöldið eftir, föstudaginn 13. desember, verður leikurinn endurtekinn og aftur verður boðið upp á Höfundakvöld í Gunnarshúsi. Í það skiptið lesa eingöngu konur upp úr nýútkomnum verkum sínum: Bergþóra Snæbjörnsdóttir les úr skáldsögunni Svínshöfuð, Brynja Hjálmsdóttir les úr ljóðabókinni Okfruman, Gerður Kristný les upp úr ljóðabókinni Heimskaut, Hanna Óladóttir les úr ljóðabókinni Stökkbrigði, Kristín Ómarsdóttir les úr skáldsögunni Svanafólkið og Vigdís Grímsdóttir les úr bókinni Systa: bernskunnar vegna. Upplesturinn hefst klukkan sex.

Á laugardeginum, 14. desember, er síðan blásið til útgáfuhófs Þriggja handa í Gröndalshúsi, frá kl. 16-18. Þar fagnar Sigurlín Bjarney Gísladóttir útkomu Stínusagna sem er myndskreytt af Sigurði Ámundasyni. Auk hennar fagnar Sigurður Örn Guðbjörnsson útkomu sinnar bókar sem er myndskreytt af Haraldi Jónssyni. Textahöfundar munu lesa upp úr bókum sínum og prentverk í takmörkuðu upplagi eftir myndhöfunda bókanna verða gefins á staðnum.