SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. janúar 2020

Verðlaunaljóðið Augasteinn

Ljóð dagsins er Augasteinn eftir Björk Þorgrímsdóttur en það hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör á þriðjudaginn var, 21. janúar.

Augasteinn

undan nóttinni vaxa trén

við vorum sammála um það

hvort var það ég eða þú sem komst aftur?

var ég heilög og húðin sjúklega geislandi kjarni sítrusávaxta

við ræddum lófana í hljóði

góm við góm meðan augasteinarnir sukku sáttlausir í myrkrinu

það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi

þú með þína klofnu tungu

og ég sem næli orðunni rétt undir viðbeinið

Hér má lesa rökstuðning dómnefndar á valinu en nefndina skipuðu Bjarni Bjarnason formaður, Ásta Fanney Sigurðardóttir og Magnús Sigurðsson.

,,Í ljóðinu Augasteinn setur skáldið fram draumkenndar myndir um tengingu tveggja einstaklinga. Þeir ræða hugsanleg örlög og lífsleiðir samkvæmt lófalestri án nokkurra orða, sem gefur til kynna annars konar skilning og tengingu þar sem snerting eða ósögð orð leika aðalhlutverkið. Myndir eins og augasteinar sem sökkva og tré sem vaxa undan nóttinni vekja upp spurningar og forvitni sem togar lesandann áfram. En þessari forvitni er ekki endilega svalað með svörum heldur öðrum myndum sem skilja lesandann eftir í lausu lofti. Það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi er áleitin fullyrðing sem í næsta orði er grafið undan með allt að því gróteskri lýsingu á orðu sem er nælt undir viðbein. Sjálft dansar ljóðið á mörkum hins skiljanlega og hins óskiljanlega, á mörkum tilrauna og hefðar, og gefur til kynna að þegar fetaðar eru ótroðnar slóðir er mikilvægt að búast ekki við viðurkenningu frá öðrum heldur veita sér hana sjálf/ur fyrir að fylgja hjartanu inn í óvissuna.

Skáldinu tekst með einstökum hætti að flétta saman sterkt en órætt andrúmsloft sem vekur lesandann til umhugsunar. Ljóðið nær með þessu móti að ramma inn sinn sérstaka heim, sem þó aðeins er hægt að ýja að með verkfærum ljóðlistarinnar."