SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. febrúar 2020

Skítkastið fór mjög minnkandi

Ljósmynd: Ragnar Th. Sig.

Úr viðtali Ingu Huldar Hákonardóttur við Ásu Sólveigu rithöfund og leikritaskáld í Dagblaðinu, 26. febrúar 1979:

Fjölmargar harmsögur rekja dapurleg örlög skáldkvenna frá fyrri tíðum — vinnuaðstaða þeirra var erfið og það sem þeim tókst þrátt fyrir það að skrifa var lítilsvirt og hætt. En Ása Sólveig segist ekki hafa mætt erfiðleikum sem rithöfundur þótt hún sé kona.

„En ég hef verið mjög heppin", bætir hún við og bendir á að með nýstofnuðum launasjóði rithöfunda hafi starfsaðstaða allra rithöfunda batnað geysilega. Eins að hún hafi byrjað að skrifa á tíma sem skítkast i kvenrithöfunda fór mjög minnkandi.

„Karlmenn koma mér samt sífellt á óvart með því að meta konur ævinlega fyrst og fremst sem kynverur," segir Ása Sólveig. Hún leit inn í Hollywood um daginn og þar tók hana tali ungur piltur og efnilegur. Hann var vel heima í menningarmálum og hafði séð sjónvarpsþáttinn Vöku þegar hún kom þar fram. Hann sagði henni sitt álit á málflutningi hinna ýmsu þátttakenda og hún beið spennt eftir að heyra hvað honum hefði fundizt um hana sjálfa. Loks kom að því: „Hvernig getur staðið á því," spurði hann mjög vingjarnlega, „að ég hélt endilega að þú hefðir stærri brjóst?" Og Ása Sólveig hlær: „Mér finnst þetta alltaf jafnfyndinn eiginleiki hjá karlmönnum," segir hún, „en þetta getur gert mann ergilegan þegar maður er að hugsa um alvarleg mál."