SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. febrúar 2020

„Samtíminn er oft svo tilgerðarlegur“

Í Kiljunni 12. febrúar ræddi Egill Helgason við Þórdísi Gísladóttur um nýjustu ljóðabók hennar, Mislæg gatnamót. Þar fjallar Þórdís meðal annars um tilgerð og sjálfhverfu nútímans sem hefur ratað í bókina hennar og kætir marga. Viðtalið má nálgast hér.

Ljóð Þórdísar reiða fram hversdagsleg og kunnugleg viðfangsefni á svo skemmtilega óvæntan, stundum óvæginn, og frumlegan hátt, líkt og ljóðið Þakkarbæn sem Þórdís flutti í Kiljunni:

 

Þakkarbæn

 

Takk fyrir

bælingu og sjálfslygi,

skriftastóla vináttunnar,

bjórdælur,

kertaljós,

kossa,

og getnaðarvarnir.

 

Takk fyrir

skuggsæl völundarhús,

verkjatöflur,

ofnæmislyf,

almenningssamgöngur

og

hormónastíla

sem stungið er í leggöng.

 

Takk fyrir gamla elskhuga

og nýja,

mjúk sængurföt,

rúnkminnið,

og rökkvaða felustaði.

 

Takk fyrir sólina,

sundlaugarnar,

bæjarins bestu,

pantaðar pítsur,

mannbrodda og tröppusalt,

freyðibað,

freyðivín,

og þúsund þakkir fyrir þvottavélarnar.

 

En umfram allt,

takk fyrir hæfileikann til að geta staulast

óöruggum skrefum,

en þó standandi í lappirnar,

yfir flest sprengjusvæði lífisins.