Kláði tilnefnd!
Fyrir stundu var tilkynnt við stutta athöfn í Gunnarshúsi að smásagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020, ásamt skáldsögunni Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson en Páll Valsson útgáfustjóri Bjarts veitti viðurkenningunni viðtöku í hans stað.
Kláði hlaut einnig tilnefningu til Fjöruverðlauna - bókmenntaverðlauna kvenna í fyrra og fékk mikla umfjöllun enda geymir bókin afar vel skrifaðar og áhugaverðar smásögur.
Umsögn dómnefndar um Kláða:
„Sagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg er fallegt dæmi um þá vorvinda sem borist geta með ungum höfundum inn í bókmenntirnar. Sögumaður horfir með nýjum augum á gömul viðfangsefni sem í frásögnunum verða á margan hátt önnur en þau voru. Endurnýjanir og breytingar eru meðal helstu lífsskilyrða bókmenntanna og stundum gerast þær með því móti að inn á sviðið stígur nýtt fólk sem lítur viðfangsefnin öðrum augum en við eigum að venjast. Frásagnarhátturinn er bæði raunsæilegur og módernískur. Gildi bókarinnar liggur framar öðru í sterkri, tilfinningalegri nálgun sem krefur lesandann svara um viðhorf og gildi í nútímanum.
Sögurnar í Kláða fjalla í stórum dráttum um það hvernig í ósköpunum er hægt að vaxa úr grasi og taka því hlutskipti sem bíður nútímamanns. Það er skrifað um kynlíf og parasambönd; átök kynslóða og kynja; klám og firringu; böl staðalímynda og fíknar; sekt og kúgun; hefðir með tómahljóði; harðsótta, tímafreka ást; og þrautseiga, kæfandi sorg.“
Skáld.is óskar Fríðu innilega til hamingju með tilnefninguna.
Sunna Dís Másdóttir tilkynnti úrslitin fyrir hönd íslensku verðlaunanefndarinnar en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins. Afhending verðlauna fer fram í Reykjavík 27. október og er verðlaunaféð 350 þúsund danskar krónur, sem eru rétt tæpar 6,5 milljónir íslenskra króna.
Aðrar bækur tilnefndar:
-
Skáldsagan Ikki fyrr enn tá eftir Oddfríði Marni Rasmussen, frá Færeyjum.
-
Skáldsögurnar Vem dödade bambi? eftir Moniku Fagerholm og Ihmettä kaikki eftir Juha Itkonen, frá Finnlandi.
-
Ljóðabókin YAHYA HASSAN 2 eftir Yahya Hassan og skáldsagan HHV, FRSHWN – Dødsknaldet i Amazonas eftir Hanne Højgaard Viemose, frá Danmörku.
-
Ljóðabókin Juolgevuoððu eftir Niillas Holmberg, frá samíska málsvæðinu.
-
Ljóðabókin När vändkrets läggs mot vändkrets eftir Mikaelu Nyman, frá Álandseyjum.
-
Ljóðabókin Marginalia; Xterminalia eftir Johan Jönson og skáldsagan W eftir Steve Sem-Sandberg, frá Svíþjóð.
-
Skáldsögurnar Den gode vennen eftir Bjørn Esben Almaas og Vi er fem eftir Matias Faldbakken, frá Noregi.
Myndir: Skáld.is