Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙23. febrúar 2020
„Ekki senda þau burtu“
Ljóð dagsins er sótt í ljóðabókina Mamma, má ég segja þér eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur. Ljóðið er afar áhrifarík bón um að komið sé vel fram við börn:
Getum við bara sammælst um
að vera góð við börn?
Og ekki aðskilja þau
frá foreldrum sínum
á landamærum.
Og ekki setja þau í búr,
aldrei setja þau í búr.
Og ekki láta þau drukkna
á hriplekum báti,
bara ekki
láta þau drukkna!
Og ekki senda þau úr landi
ríkisfangslaus
út í óvissuna
né rífa þau úr leikskóla
úr grunnskóla
úr framhaldsskóla
frá vinum
af heimili sínu.
Ekki senda þau burtu.
Ekki senda þau á götuna
í flóttamannabúðir
í dauðann.
Ekki neita þeim
um heilbrigðisþjónustu
um menntun
um ást
um líf.
Bara plís!
Getum við í hamingjunnar bænum
sammælst um að vera góð við börn?