SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 7. apríl 2020

TVÆR GEÐVEIKAR

             

Tvær bækur rákust hvor á aðra og fóru að bera sig saman. Komust þær þá að því að þær voru báðar um misnotkun og geðveiki.

 

Sú eldri er Gullið í höfðinu eftir Diddu (1999). Sú bók segir frá Kötlu sem barn að aldri ímyndar sér að fólk sem meiðir kennir alltaf þeim sem það meiðir um að hafa meitt það (23). Þannig tekur hún t.d. á sig sök af misnotkun frænda síns. Móður hennar finnst Katla snemma svo undarleg að hún hreinlega kalli yfir sig eineltið sem hún verður fyrir í skólanum. Loks veikist hún og brjálast, endar á geðdeild og kýs að þagna endanlega. Hrikaleg saga og ógleymanleg.

 

 

 

Hin bókin er Manneskjusaga (2018) eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Bókin fjallar um Björgu sem er fædd 1959, þroskaskert ættleidd stúlka í samfélagi sem ekki skilur neitt og hún lendir í einelti og ítrekuðu ofbeldi. Ungri er henni nauðgað og send í fóstureyðingu. Eftir það tekur við hvert áfallið á fætur öðru þar sem kerfið bregst og bregður fyrir hana fæti og hjálp fæst ekki. Þrjú börn eru tekin af henni þar sem hún gat ekki sinnt þeim vegna geðveiki og alkóhólisma og undir lokin er Björg orðin útigangskona. Þetta er skáldævisaga, byggð á raunverulegum atburðum og lýsir ekki síst vanmætti og skömm aðstandenda. Alveg sérlega áleitin og áhrifamikil frásögn.