Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙12. apríl 2020
Páskaljóð
Í tilefni dagsins frumbirtum við hér glænýtt ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem nefnist Páskaljóð og óskum öllum gleðilegra páska!
Páskaljóð
Ég var að drepast
úr áhyggjum af börnunum
út af farsóttinni
þegar ég mundi eftir því
að undanfarna páska
hafði Jesú vitjað mín
svo nú bauð ég honum inn
ég vissi strax að ég þyrfti
að bjóða honum blíðlega
og sleppa öllum dúfum
og niðurdýfingum
sleppa hreinsunareldinum
en gefa honum lífið
og þá kom Jesú
hann kom á föstudaginn
langa og ég læknaðist
áhyggjurnar hurfu
og ég varð heil
þetta var sama dag
og hann sjálfur
var krossfestur.