Skáldkona í beinni
Það þarf enginn að láta sér leiðast á tímum samkomubanns. Ýmislegt er í boði sem bæði hressir og kætir. Til dæmis er hægt að hlýða á skáldkonuna Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur lesa upp úr bókum sínum Vinur minn vindurinn og Sjáðu mig sumar, á morgun 15. apríl. Upplesturinn hefst kl. 13 og verður í beinu streymi á fréttaveitu facebooksíðu Bókasafns Garðabæjar en hann verður síðan aðgengilegur í tvær vikur eftir upptöku.
Vinur minn, vindurinn er fyrsta bók Bergrúnar Írisar. Hún kom út árið 2014 og var tilnefnd til bæði Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Bergrún Íris hefur hlotið margar tilnefningar og verðlaun síðan fyrir bækur sínar.
Í frétt á facebooksíðu Bókasafns Garðabæjar er fullyrt að bækur Bergrúnar Írisar henti börnum á öllum aldri - alveg upp í 102 ára gömlum! Þetta er því kjörin fjölskylduskemmtun.