SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. maí 2020

Tvær konur hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

 

Í gær var tilkynnt hverjir hlutu Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í ár en þau eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni; í flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga.

Í flokki frumsaminna bóka hlaut Margrét Tryggvadóttir verðlaunin fyrir bók sína Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir og í flokki myndlýsinga hlaut Rán Flygenring verðlaunin fyrir bók sína Vigdís; bókin um fyrsta konuforsetann. Loks hlaut Þórarinn Eldjárn verðlaunin fyrir þýðingu sína á bók Tove Jansson: Hver vill hugga krílið?

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars um bók Margrétar að það sé mikill fengur í þessu verki og að lesendur séu listilega leiddir inn í samfélag, ævi og verk Kjarvals. Sögð sé saga á aðgengilegan hátt sem ætti að vekja áhuga allra á bæði Kjarval sjálfum og verkum hans og þannig stuðli hún að því að viðhalda áhuga þjóðarinnar á listamanninum sem og að afla honum nýrra aðdáenda.

Í umsögn dómnefndar kemur meðal annars fram um bók Ránar að farin sé frumleg leið til að kynna Vigdísi forseta fyrir yngri lesendum. Ungi rithöfundurinn leiki veigamikið hlutverk í sögunni og sé ekki síðri fyrirmynd en fyrsti kvenforseti þjóðarinnar. Þegar upp er staðið verði kjarkur hennar og framhleypni öllum til fyrirmyndar í þessari fallegu sögu um hugrekki kvenna á öllum aldri.

Í dómnefnd sátu Tinna Ásgeirsdóttir formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Helga Birgisdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Á vef Reykjavíkurborgar má nálgast allar frekari upplýsingar um verðlaunin.