Verðlaunabókin Blokkin á heimsenda
Blokkin á heimsenda er ný bók ætluð ungmennum eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Bókin kom út fyrir rúmri viku síðan, þann 19. maí, en sama dag hlaut hún Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020.
Þetta er í annað skiptið sem Reykjavíkurborg efnir til þessara verðlauna sem ætluð eru fyrir óprentuð handrit. Tilgangur þeirra er að hvetja til metnaðarfullra skrifa fyrir börn og ungmenni og halda á lofti nafni Guðrúnar Helgadóttur. Vel á fimmta tug handrita barst keppninni og er verðlaunaféð ein milljón króna.
Í dómnefnd sátu Geir Finnsson, formaður, Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Heiða Rúnarsdóttir og á lokametrunum fengu þau tvo nemendur úr sjötta bekk Háteigsskóla sér til aðstoðar. Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram:
„Það má með sanni segja að andi og arfleifð Guðrúnar Helgadóttur svífi yfir Blokkinni á heimsenda. Horft er á samfélag hinna fullorðnu með augum barnsins. Þar er ekki allt eins og best verður á kosið en með samstöðu og samhygð komast sögupersónur vel frá verki og vaxa að völdum og virðingu.“
Afhending verðlauna fór fram í Höfða en vegna ástandsins í samfélaginu var heldur fámennt og athöfnin þess í stað kvikmynduð svo að fleiri mættu njóta. Hér má horfa á athöfnina.