SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir10. júní 2020

Sólveig fær Blóðdropann

Sólveig Pálsdóttir hlýtur Blóðdropann fyrir skáldsögu sína, Fjötra.

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir bestu íslensku glæpasögu ársins. Í ár voru 20 bækur tilnefndar.

Hið íslenska glæpafélag stendur að verðlaununum.

Fjötrar Sólveigar Pálsdóttur verða framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna 2021.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Niðurstaða dómnefndar er sú að Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur sé verðskuldaður sigurvegari að þessu sinni. Í sögunni fléttar Sólveig á frumlegan og öruggan hátt saman sögum af mannshvarfi, misnotkun og sjálfsskaða í spennandi frásögn sem litast af leyndarmálum fjölskyldna. Ljóst er frá fyrstu síðu að lesandi er í öruggum höndum höfundar sem hefur góð tök á öllum þráðum fléttunnar og hefur vandað til verks. Frásögn Sólveigar er í senn spennandi, áhugaverð, kímin og sorgleg. Afraksturinn er bók sem lætur engan ósnortinn.“

Dómnefnd skipuðu Páll Kristinn Pálsson, formaður, Helga Birgisdóttir og Kristján Atli Ragnarsson

Sólveig Pálsdóttir er fædd í Reykjavík 13. september 1959. Hún lauk leiklistarnámi 1982 og starfaði sem leikkona um árabil. Meðfram leiklistarstörfum vann hún að dagskrárgerð hjá RÚV. Sólveig hefur lokið námi í almennri bókmenntafræði og kennsluréttindum . Hún var íslensku, tjáningar- og leiklistarkennari við Hringsjá, náms- og starfsþjálfun í 17 ár og kenndi árum saman á vegum stofnana og fyrirtækja. Sólveig var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019.