SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir18. júní 2020

Þjóðhátíðarljóð Þórdísar

Höfundur þjóðhátíðarljóðsins 2020 er hinn vinsæli rithöfundur og góðvinkona skáld.is Þórdís Gísladóttir. Ljóðið var flutt af leikkonunni ástsælu Eddu Björgvinsdóttur í hlutverki fjallkonunnar á Austurvelli í gær, 17. júni. Hlýða má á flutning fjallkonunnar hér, hún gengur fram á völlinn á 19.50 mín. Þórdís gaf skáld.is til að birta ljóð sitt og þökkum við henni kærlega fyrir það.

17. júní 2020

honum lauk

þessum vetri

sem sífellt minnti á sig

og færði okkur

óveður

snjóflóð

jarðskjálfta

farsótt

hann er liðinn

þessi vetur

sem neyddi okkur til að rifja upp gömul orð

sóttkví

samkomubann

píningsvetur

sóttarvetur

lurkur

það kom vor

með sólgullin lauf

himinblátt haf

og farfuglasöng

nú er sumar

við getum ferðast

um stræti

garða

urðir

móa

undir hverflyndum skýjum

í sólskini

þoku

regni

við skulum hugsa hvert um annað

við skulum njóta bjartra dægra

við skulum rækta garðinn okkar

Þórdís Gísladóttir