SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 6. júlí 2020

„Dáið er alt án drauma“

 

Menningarsumarið heldur áfram í Bókakaffinu á Selfossi. Sunnudaginn 12. júlí sækir dagskráin yfirskrift sína í kvæði Nóbelskáldsins, enda munu ljóðin svífa yfir vötnum.

Fjögur ljóðskáld koma fram og þar af eru þrjár konur. Rangæingarnir Harpa Rún Kristjánsdóttir og Brynjólfur Þorsteinsson munu lesa úr væntanlegum ljóðabókum sínum, en árið 2019 hlutu þau bæði verðlaun fyrir ljóð sín, Ljóðstaf Jóns úr Vör og verðlaun Tómasar Guðmundssonar. Nöfnurnar Steinunn Sigurðardóttir og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir lesa einnig auk þess sem sú síðarnefnda mun leika og syngja draumkennda tónlist.

Sem fyrr verður dagskráin flutt tvisvar sinnum og takmarkaður sætafjöldi er á viðburðina. Talið verður inn og eru 25 pláss í boði. Síðast komust færri að en vildu svo fólk er hvatt til þess að mæta tímanlega. Boðið er uppá ókeypis uppáhelling og te meðan á viðburðunum stendur.

Fyrri dagskráin hefst kl. 14 og sú seinni kl. 15. Athugið að um er að ræða sömu dagskrá sem flutt er tvisvar sinnum.