SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 8. júlí 2020

Þar sem ást mín vex

Annalou Perez er ein af þeim sem eiga texta í nýjasta hefti tímaritsins Ós - The Journal. Þar birtist eftir hana ljóðið Þar sem ást mín vex sem hún orti og flutti árið 2015 þegar hún steig á stokk sem fjallkona Dalvíkur (sjá bls. 69).

Í tímaritinu segir frá því að Annalou kemur til Íslands árið 2001 en hún á rætur að rekja til Filippseyja. Um þessar mundir vinnur hún að meistararitgerð sinni við Háskóla Íslands.

Í þessu fallega ljóði segist Annalou tjá ást sína á Íslandi samfara því að heiðra uppruna sinn. Þegar hún var beðin um að vera fjallkona Dalvíkur árið 2015 hafi hún ákveðið að sæta lagi og yrkja um tilfinningar sínar í garð Íslands. Hún orti ljóðið á ensku og sneri eiginmaður hennar, Rúnar Sveinsson, því yfir á íslensku.

 

Þar sem ást mín vex

 

Lungun fagna fersku lofti

Vatnið tæra slekkur þorstann

Daginn sem ég endurfæddist

Frá Filippseyjum Kyrrahafsins

Til undralands Íshafsins

 

Hvít bómull féll af himnum

Sem glitrar á sólríkum degi

Veitir ljósi á dökka grund

Undur snævar koma fram

 

Frískleiki golunnar

Dans litanna á næturhimni

Fanga hjarta mannsins

Veturinn færir leyndardóma

 

Þegar fleygir gestir lenda

Og túnin verða græn

Þar sem birtan er tímalaus

Þá eru ævintýrin endalaus

 

Rætur mínar eru í annarri mold

En vindurinn blés hjarta minu

Á þessa grund féllu ávextir minir

Á Íslandi þar sem ást mín vex

 

Myndin af Annalou Perez er sótt á síðu Dalvíkurbyggðar.