SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. júlí 2020

Svikakvöld - Aftur

Þann 16. júlí næstkomandi verður boðið upp á spennandi ljóðakvöld í Gröndalshúsi í Grjótaþorpi sem Svikaskáld standa fyrir í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Til stendur að halda þessi kvöld mánaðarlega, þriðja fimmtudag hvers mánaðar.

Svikaskáldin eru Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir. Svikakvöldin eru hins vegar hugsuð sem vettvangur sem rúmar öllu fleiri skáld, bæði ung skáld og reyndari, til að endurspegla fjölbreytileikann. Með þessu móti vonast skáldkonurnar til að „tengja saman kynslóðir, menningarheima og senur innan ljóðaheimsins í Reykjavík", líkt og kemur fram í viðburði Svikaskáldanna á Facebook. Dagskráin stendur frá klukkan 20-22 og boðið verður upp á kaffi, og jafnvel eitthvað fleira. Öll eru velkomin. Á stokk stíga átta skáld og þar af eru fimm konur:

Atli Pálsson

Berglind Ósk Bergsdóttir

Davíð Hörgdal Stefánsson

Jakub Stachowiak

Kristín Svava Tómasdóttir

Linda Vilhjálmsdóttir

Oddný Rósa Ásgeirsdóttir

Stefanía Dóttir Páls