Þjófsaugun
Vilborg Dagbjartsdóttir varð níræð í gær en hún fæddist á Hjalla á Vestdalseyri þann 18. júlí árið 1930. Vilborg hefur sent frá sér fjölda verka en fyrsta ljóðabók hennar var Laufið á trjánum sem kom út árið 1960 og var hún þá ein af fáum konum sem skrifuðu atómljóð.
Skáld.is óskar Vilborgu innilega til hamingju með stórafmælið og finnst við hæfi að hún eigi ljóð dagsins. Ljóðið Þjófsaugun birtist í ljóðabókinni Klukkan í turninum sem kom út árið 1992. Ljóðið geymir útskýringu á viðurnefni Hallgerðar langbrókar og ennfremur túlkun á samskiptum hennar við Hrút móðurbróður sinn.
Þjófsaugun
Hann færði öllum gjafir
þegar hann kom – líka krökkunum
Móðir hennar tók við gjöfunum
og útdeildi þeim
Allir voru ánægðir með sinn hlut
nema hún
sem fékk andstyggilega flík
eitthvað sem kallinum hafði áskotnast
í útlöndum fyrir löngu
En engin hérlend stúlka gengi í slíkri dulu
Krakkarnir stungu saman nefjum
Láfi flissaði:
Gerða fékk langbrók!
Móðir hennar hastaði á þau
en of seint
orðið hékk í loftinu
og myndi hér eftir loða við hana
eins og slímugur kóngulóarvefur
Hvað hún hataði karlfjandann
Þarna sat hann á tali við föður hennar
hvimandi flóttalega út undan sér
litlum rauðsprengdum glyrnum
Hún fann kámugt augnaráð hans hvíla á sér
hvert sem hún sneri
Nú kallaði faðir hennar