SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir11. ágúst 2020

Tvö ástarljóð

Allir dagar eru hinsegin dagar og allskonar dagar og fer jafnan vel á því. Ástin er einnig allskonar og sækir flesta heim í einhverri mynd. Ljóð dagsins hverfast um þá ást sem geymir nándina og gleymir tímanum og eru eftir skáldkonurnar Ásdísi Óladóttur og Ingunni Snædal.

Ljóðið eftir Ásdísi Óladóttur heitir Snerting. Það birtist í ljóðabókinni Haustmáltíð sem kom út árið 1998. Haustmáltíð er önnur ljóðabók skáldkonunnar en hún hefur sent frá sér átta ljóðabækur.

Þrátt fyrir að láta lítið yfir sér rúmar ljóðið Snerting afar stórar tilfinningar og nær svo vel að lýsa þeirri nánd sem einungis getur orðið milli tveggja elskenda:

Snerting

Um hljómfagra nótt

undir klæðum

þess ófyrirséða

snertast tvær verur

að innan.

Hitt ástarljóðið er eftir Ingunni Snædal og nefnist Ósk. Ljóðið birtist í fyrstu ljóðabók Ingunnar, Á heitu malbiki, sem kom út árið 1995 en hún hefur sent frá sér samtals sex ljóðabækur.

Ljóðið Ósk lýsir snertingu, rétt eins og ljóð Ásdísar, auk þeirrar óskar um að unnt sé að treina þessa stund sem lengst:

Ósk

Leyfðu mér

að strjúka lokka þína

og láta eins og á morgun

renni ekki nýr dagur

Ef við óskum þess nógu heitt

hættir tíminn að vera til

og klukkur heimsins

tifa aðeins fyrir okkur tvö

lokka þína

og léttar strokur mínar