SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. september 2020

Ritlistarnámskeið með Sunnu Dís

Um miðjan september hefst, á vegum Borgarbókasafnsins, námskeið í ritlist undir leiðsögn Sunnu Dísar Másdóttur rithöfundar. Á námskeiðinu verður fjallað um ýmsar gerðir smátexta. Hver er munurinn á örsögu og stuttri smásögu; smáprósa og ljóði? Skiptir það máli? Hver er galdurinn í hinu smáa? Nemendur gera ýmsar æfingar og lesa saman texta í leit að lyklinum.

Í féttatilkynningu frá Borgarbókasafninu segir:

Það er vart orðum aukið að sjaldan eða aldrei hafi hæfileikinn til að finna gleðina í því smáa komið sér jafn vel og undanfarna mánuði og misseri. Á tímum kófsins finna margir ánægju í því að reyna fyrir sér í nýjum áhugamálum eða gefa sér aftur tíma til að sinna gömlum hugðarefnum. Og þar getur penni og blað fleytt okkur langt!

Borgarbókasafnið býður þér að slást í hóp annarra höfunda á ritlistarnámskeiðinu Gleðin í því smáa þar sem leikgleðin ræður einmitt för. Við beinum sjónum að hinu smáa: Við lesum saman og skrifum smátexta, örsögur, ljóð, esseyjur eða smásögur og gerum saman tilraunir og stílæfingar. Námskeiðið er haldið á Skrifstofunni, ritsmíðaverkstæði á Borgarbókasafninu Kringlunni.

Námskeiðið verður kennt með þeim hætti að geri breyttar kröfur um sóttvarnir það ómögulegt að hittast verður kennslan samstundis flutt á netið. Sömuleiðis verður gætt að hámarksfjölda með það fyrir augum að hægt verði að tryggja tveggja metra fjarlægðarmörk. Áhersla er lögð á að nemendur skili reglulega textum til kennara og fái endurgjöf á þá. Í lok námskeiðs velja nemendur einn texta sem búinn verður til útgáfu á vef Borgarbókasafnsins.

Að öllu óbreyttu verður kennt í smiðjuformi í fimm skipti, annan hvern miðvikudag, frá kl. 16.30-18.30. Námskeiðið hefst 16. september og lýkur 11. nóvember. Á milli smiðja skila nemendur textum til kennara og fá endurgjöf. Að námskeiði loknu fullvinna nemendur sinn útvalda texta og búa til útgáfu.

Skrifstofan er ritsmíðaverkstæði og samfélag skrifandi fólks. Þar getur fólk komið saman og unnið að ritstörfum sínum; einbeitt sér að skrifum í hvetjandi umhverfi; fundið ritfélaga til þess að lesa yfir texta eða skiptast á skoðunum við; sótt sér innblástur í bækur og annað efni eða fundið samfélag annarra höfunda.

Skrifstofan er opin öllum sem hafa áhuga á skrifum og ritstörfum.

Skráning hefst 31. ágúst.

Hámarksfjöldi þátttakenda: 15. Fyrstir skrá, fyrstir fá. Skráning: sunnadis@gmail.com

Kennsla í smiðjum fer fram annan hvern miðvikudag:

16. september

30. september

14. október

28. október

11. nóvember.

Miðvikudagana þess á milli senda nemendur kennara texta sína til yfirferðar og endurgjafar.

18. nóvember: Lokaskil efnis.

2. desember: Útgáfuhóf á Skrifstofunni!

Nánari upplýsingar veita:

Sunna Dís Másdóttir sunnadis@gmail.com

Guttormur Þorsteinsson

guttormur.thorsteinsson@reykjavik.is