Ljóðaleiðsögn: Myndmál IV
Næstkomandi fimmtudag verða skáldkonurnar Kristín Svava Tómasdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir ásamt Degi Hjartarsyni með ljóðaleiðsögn um sali Gallerí Ports, á Laugavegi 24, frá klukkan18 til 19. Þetta er fjórða ljóðaleiðsögnin um hin ýmsu myndlistarými í samvinnu við Reykjavíkurborg.
Ljóðaleiðsagnir sem þessar eiga sér fyrirmyndir í sambærilegum uppákomum í myndlistarrýmum Nýlistasafnsins í New York sem þótti dýpka listræna upplifun gestanna.
Kristín Svava, Sigurbjörg og Dagur flytja frumsamin ljóð eða texta eftir aðra fyrir framan listaverk að eigin vali í galleríinu. Hugmyndin er sú að orðin verði upptendrun fyrir eyrun en verkin fyrir augun. Að lestri loknum gefst gestum tækifæri til þess að spyrja skáldin um bæði verk sín og ástæðuna fyrir því að þau völdu eitthvað tiltekið listaverk.